22.9.2008 | 17:54
Nýja kalda stríðið heldur áfram.
Rússland er í sókn á öllum sviðum, en kannski mest áberandi hernaðarlega. Þetta er óumdeild staðreynd, og afleiðingar hennar eru ekki öllum þóknanlegar. Fréttaflutningur Morgunblaðsins ber þess greinileg merki. Í kjölfar yfirlýsinga Geirs Haarde um það að rússar væru enn hættulegir, hefur blaðið séð tilefni til þess að tilkynna um það að rússneskar sprengjuflugvélar hafi komið oftar inn á eftirlitssvæðið eftir brottför hersins sem er ekki einkennilegt, enda hófu þeir reglulegt flug slíkra véla ekki á ný fyrr en síðla árs 2007. Ennfremur hafa komið tvær fréttir um ferðir rússneskra hernaðartækja um efnahagslögsögu Íslands, en í báðum tilvikum var um að ræða ferðir sem mun frekar ættu að valda Karíbahafslöndum áhyggjum en okkur; flugvélarnar voru á leið frá Venesúela, og skipaflotinn til.
Tíðrætt hernaðarlegt mikilvægi Íslands felst í einni einfaldri staðreynd. Við erum á miðju Norður-Atlantshafi. Sá sem hefur forráð yfir Íslandi getur fylgst með svo að segja allri skipa- og flugumferð yfir það. Í síðari heimsstyrjöldinni gerði þetta þjóðverjum ókleift að koma norðursjávarflota sínum á Atlantshafið, sem er ekki útilokað að hafi gert gæfumuninn fyrir Bandamenn. Þetta hernaðarlega mikilvægi er ekki til staðar nema þegar aðgengi að Atlantshafi er lykilatriði. Það gefur því að skilja að þegar réttlæta á fjáraustur í varnarmál sé nauðsynlegt að gera eins mikið og hægt er úr rússnesku hættunni, þó hún sé ekki rauð lengur. Í átökum milli Rússlands og Bandaríkjanna yrði Ísland mikilvæg vaktstöð, sem landið er ekki í dag. Önnur ríki sem við gætum hugsanlega lokað af Atlantshafinu eru öll NATO meðlimir, og því erfitt að mála þau upp sem ógn. Sú staðreynd að samkvæmt alþjóðalögum hefur Ísland einungis sérréttindi til hagnýtingar 200 mílnanna, og að engin heimild sé til að stöðva siglingar utan þeirra tólf mílna þar sem íslensk lög gilda, er hér til óþurftar. Eða kannski hún sýni hvað alþjóðalög séu ósanngjörn. Við megum ekki banna rússum að sigla til Venesúela.
Og hvað með það?
Rússnesk herskip sigla gegnum íslensku efnahagslögsöguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 12:09
Stuðningur við hryðjuverkasamtök?
Listar yfir hryðjuverkasamtök eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Hóparnir tveir sem hér um ræðir eru nokkuð óumdeilanlega ábyrgir fyrir ýmsum hryðjuverkum. Hinsvegar má benda á að helstu andstæðingar þeirra eru ekki síður ábyrgir fyrir hryðjuverkum, en eru mun fátíðari gestir á slíkum listum. FARC sérstaklega hefur fengið á sig slæmt orð upp á síðkastið, og eru sjaldnast titlaðir annað en eiturlyfjasmyglarar eða hryðjuverkamenn. Það voru fangar þeirra sem Kólumbíuher frelsaði með augljósu broti á Genfarsáttmálum, sem er auðvitað réttlætt með því að FARC eigi engin réttindi undir þeim samningum. Vissulega eru FARC ábyrgir fyrir voðaverkum, en á móti ber að líta á þá staðreynd að stjórnarherirnir og dauðasveitirnar sem á móti þeim standa eru í engu skárri. Engu að síður eru þeir hópar verðlaunaðir æ ofan í æ með veglegum stuðningi úr opinberum sjóðum bæði BNA og ESB. Hræsnin hér er ískyggileg; fyrir fáeina smáskildinga sem virðast ekki einu sinni hafa komist til skila eru almennir borgarar fangelsaðir, en fyrir stórtækan fjárstuðning og vopnasölu til andstæðinga þeirra er stjórnmálamönnum og iðnjöfrum hrósað!
Markmiðið með refsingum fyrir stuðning við hryðjuverkasamtök er ekki að hlífa almenningi við hryðjuverkum, hvorki í heimalandi né annars staðar. Markmiðið er að hafa stjórn á því hvaða hryðjuverkasamtök fá fjárstuðning.
Dönsk ungmenni studdu hryðjuverkasamtök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2008 | 20:32
Hver er ástæðan?
Hækkandi heimsverð á matvælum er frasi sem hefur heyrst oft undanfarið. Á þessu fyrirbæri hafa komið fram tvær skýringar, sem báðar eru trúverðugar. Engu að síður er hægt að telja á fingri annarar handar þá sem dirfast að nefna báðar, því önnur skýringin er afar sár frjálshyggju- og íhaldsstrumpum, en hin veldur grænstrumpum miklum vonbrigðum.
Skýringarnar tvær eru sumsé annars vegar sú að aukin eftirsókn eftir ræktarlandi undir framleiðslu á lífrænu eldsneyti sé sökudólgurinn, skýring sem umhverfisverndarsinnar eiga í erfiðleikum með en olíumógúlar taka fegins hendi. Hin skýringin snýst um hlutverk matvælamarkaða, og gerir ráð fyrir því að braski á þeim sé um að kenna. (Brask er viðskipti sem snúast alfarið um að hagnast á mismuni kaup- og söluverðs, og hækkar þannig eftirspurn fram yfir raunverulega notkun.) Eins og gefur að skilja stendur þetta nokkuð í frjálshyggjustrumpunum (sem er ekki óvanalegt ástand einhvern veginn urðu þeir bláir) sem eru jafnan fljótir að stökkva til varnar þessu nauðsynlega viðskiptafrelsi.
Hver svo sem ástæðan fyrir hækkandi verði er, þá ætti það ekki að geta valdið raunverulegri hungursneyð. Á heimsvísu er nú framleitt margfalt magn matvæla á við það sem þyrfti til að fæða alla kjafta á þessari kúlu. Af hverju dreifist það ekki betur?
Vaxandi hungursneyð vegna hækkandi heimsverðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2008 | 12:36
Algengt mynstur.
Opinber uppbygging á tæknilegum innviðum sem síðan eru hagnýttir af einkaaðilum sem meira og minna fá þá upp í hendurnar er síður en svo eindæmi hér á Íslandi. (Raunar er einna merkilegast hversu erfiðlega hefur gengið að koma orkumálunum í einkahendur.) Stór hluti af hátækniþróun síðustu áratuga er bein afleiðing af gríðarlegum fjáraustri hins opinbera í verkefni sem hafa litla hagnaðarvon fyrr en að löngum tíma loknum. Hér má sérstaklega benda á tölvutækni og internetið, en öll sú tækni sem gerði einkatölvuna mögulega í kringum 1980 hafði verið þróuð í tengslum við fjárveitingar frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna.
Annar hluti af þessu er að einkaaðilar hafa ítrekað reynst mjög tregir til að byggja upp stoðkerfi, og þar liggur vandinn við orkunetið. Raforka er svipuð og vegakerfið; það þurfa nær allir að nota kerfið, en nánast ógjörningur er að reka það með hagnaði. Lausnin sem hefur fundist í vegakerfinu er að bjóða út framkvæmdir, sem gerir verktökum kleift að skilja sig frá viðhaldi og skipulagningu kerfisins. Í orkugeiranum er hugmyndin að hleypa einkareknum fyrirtækjum til útlanda, þar sem aðrar ríkisstjórnir hafa áhuga á því sem hér hefur verið að gerast, og finna þannig hagnaðinn sem er nauðsynlegur til að einkafyrirtækin þrífist. Þetta er hægt að gera sökum þess að staðbundnar aðstæður í t.d. El Salvador, sem er einn af stöðunum þar sem þessi starfsemi er í gangi, gera það að verkum að ríkisstjórnirnar eru fyllilega fúsar að láta utanaðkomandi aðila hagnast, en frá sjónarmiði erlendu ríkisstjórnanna væri að sjálfsögðu skynsamlegast að ráða sérfræðingana beint til sín, án aðkomu ráðgjafarfyrirtækjanna íslensku. Þetta kallar Geir svo samvinnu einkaframtaks og hins opinbera.
Opinber yfirráð orkumála ekki æskilegri en einkaframtak | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.9.2008 | 18:42
Rússarnir koma, rússarnir koma!
Mikið rétt, rússarnir koma. Af nýlegum fréttaskrifum er það helst að ráða að rússarnir hafi notað tækifærið eftir að Bandaríkjamenn yfirgáfu skerið, og beini nú eftirlitsflugi sínu hingað í auknum mæli og að þetta megi túlka sem ögrun við bæði íslensk og bandarísk stjórnvöld.
Ekki er gefið upp hvers konar sprengjuvélar um er að ræða, en líklegast er að hér séu á ferðinni Тúpoljev 95 eða 160 vélar. Tú-160 er sennilega stærsta ógnin, en þeim vélum er ætlað að ráðast gegn hernaðarlega mikilvægum skotmörkum utan vígvalla og það er ekki ólíklegt að þær séu búnar kjarnorkuvopnum í einhverjum tilvikum. Það er því alls ekki rangt að gefa í skyn að þessi flug rússa séu ógnvekjandi.
Það sem er öllu vafasamara er að setja tíðni þessara fluga í eitthvert samhengi við brotthvarf Bandaríkjahers. Vígvæðing norðursvæðisins snarminnkaði eftir lok kalda stríðsins, en ástæðan fyrir því var sáraeinföld: Í kjölfar markaðsvæðingar Rússlands var ríkið búið að missa því sem næst allar eignir sínar gegn hreinum smáaurum, á sama tíma og veruleg verðbólga geisaði. Rússar höfðu einfaldlega ekki efni á að halda uppi hernaðareftirliti og viðbúnaði með sama sniði og áður. Flug strategískra sprengjuflugvéla var meðal þess sem hætt var við. (Annað fórnarlamb kreppunnar var rússneska geimskutlan Búran, en tæknileg hönnun hennar var að mörgu leiti áhugaverð og stóð þeirri bandarísku að flestu framar.) Eins og þeir sem fylgst hafa með fréttum undanfarin ár ættu að vita, tóku rússar ekki að rétta úr kútnum fyrr en eftir að Pútín tók við forsetastólnum í árslok 1999. Meðal hans fyrstu verka var að koma leifum KGB í gagnið á ný, og reisa innra valdakerfi Rússlands á nýtt. Það var ekki fyrr en það var að mestu komið af stað sem að rússneski herinn sem slíkur þ.e., þeir hlutar hans sem snúa að augljósum aðgerðum utan landsvæðis Rússlands fór í andlitslyftingu. Hluti af þeirri andlitslyftingu var nokkur endurnýjun á flugflotanum, þar á meðal á Tú-160. Flugfloti rússanna var ekki kominn í skikkanlegt horf fyrr en í kringum 2005, og opinberlega hófu þeir ekki reglulegt flug fyrr en síðla árs 2007. Það er því ekki undarlegt að rússneskar sprengjuflugvélar hafi farið að láta kræla á sér á ný um svipað leyti og Bandaríkjaher hvarf héðan.
En er það til marks um einhverja sérstaka hættu fyrir Ísland?
Rússarnir í 35 sjómílna fjarlægð frá landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Stjórnlausar fréttaskýringar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar