Rétt hjá McCain.

Ef hefðin heldur áfram, þá er ekkert að marka skoðanakannanir eða jafnvel útgangsspár. Það sem skiptir máli er ekki bara hversu mikill atkvæðamunurinn er, heldur líka hversu mörgum atkvæðum Repúblikönunum tekst að henda út!

Greg Palast hefur farið yfir þetta í nokkrum greinum og bókum, og ég mæli með því að menn kynni sér verk hans…


mbl.is McCain blæs á skoðanakannanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar hvað?

Nú má sjá hvers vegna engum dettur í hug að boða til kosninga. Miðað við þessar tölur hlyti Sjálfstæðisflokkurinn verstu útreið sögunnar. Það hugnast þeim ekki, og nánast öruggt má telja að þeir reyni að veðra það út kjörtímabilið, og vona að þeir nái að firra sig allri ábyrgð áður en til kosninga kemur. Það hefur gengið hjá þeim hingað til…


mbl.is Minnihluti styður stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er þetta nýtt?

Kosningasvik í BNA hafa verið í meira lagi í allnokkur ár. Greg Palast og Robert Kennedy yngri eru með ágætis síðu um þetta.
mbl.is Varað við kosningavandræðum í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdhroki ríkisstjórna

Nú sést greinilega hversu ómerkilegur pappír stjórnarskráin og önnur stjórnskipunarlög eru. Ráðherrar líta svo á að það sé þeirra að taka ákvörðun um geysistórt lán. Það er einfaldlega ekki svo. Fjárveitingarheimildir eru á höndum þingsins, og slíkar ákvarðanir á að taka á fundum Alþingis, í heyranda hljóði, en ekki að baki luktum dyrum Ráðherrabústaðar. Sú verður þó raunin þegar demókratískur sentralismi Sjálfstæðisflokksins – þess flokks, sem lengst hefur haldið uppi flokksskipulagshefðum Leníns hér á landi – verður ofan á. Samfylkingin gerir allt til að vera 'memm'.

Verst af öllu er svo það, að hinir flokkarnir yrðu litlu skárri. Þessi sjúkleiki er kerfisbundinn í íslenska stjórnkerfinu, sem er þannig úr garði gert að framkvæmdavaldið er allsráðandi. Þessu verður að breyta. Staðreyndin er sú að stjórnarskráin sem við búum við var samþykkt til bráðabirgða, og fól í sér lágmarksbreytingar frá stjórnskipan Konungsríkisins Íslands. Sú stjórnskipan var þá þegar orðin að mestu úrelt, og síðari breytingar hafa gert hana enn óheppilegri en var. Engu að síður hefur Alþingi verið algjörlega ófært um að færa meginþætti íslenskrar stjórnskipunar til almennilegs horfs. Það er kominn tími til að fá öðrum þetta verkefni í hendur. Ég legg til að kallað verði sérstakt stjórnlagaþing, við fyrsta tækifæri. Því verði ætlað að hamra saman ný stjórnskipunarlög fyrir Lýðveldið Ísland, sem skyldu taka gildi þann 17. júní 2011, á tveggja alda ártíð mannsins sem mest bar á í eina skiptið sem boðað hefur verið til stjórnlagaþings hér á landi. Núverandi stjórnskipan hefur sýnt það að hún er ekki traustsins verð.


mbl.is Engin óaðgengileg skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar Alþingiskosningar!

Nei – í því umhverfi sem nú er komið upp er ástæðulaust að boða til kosninga til Alþingis. Ég leyfi mér að segja að frekar sé þörf á því að kalla til kosningar stjórnlagaþings. Íslenska stjórnskipulagið ber verulega ábyrgð á því hvernig komið er í dag, og það myndi hafa hverfandi áhrif að skipa Steingrím eða hans kóna í ráðherraembætti – þó það sé örugglega það sem hann er að falast eftir. Til að leysa úr helstu vandamálum samtímans er nauðsynlegt að leita mun dýpra en svo. Heljartök ríkisstjórnarinnar á Alþingi, áhrifaleysi almennings, sívaxandi vandi „landsbyggðarinnar“ – allt eru þetta afleiðingar af stjórnskipunarkreppu í þessu landi sem er brýnt að leysa. Alþingi og ríkisstjórnina skortir trúverðugleika, getu og vilja til að losa þann hnút. Stjórnarskráin var samþykkt til bráðabirgða – en nú eru liðin 64 ár síðan. Það er löngu orðið sýnt að Alþingi er ófært um að laga stjórnarskrána til, og því er réttast að það verkefni verði falið öðrum.

Væri svo ekki táknrænt að láta nýja stjórnskipan taka gildi þann 17. júní 2011, á tveggja alda ártíð mannsins sem batt endi á fyrsta íslenska stjórnlagaþingið?


mbl.is Kosningar þegar ró færist yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússar neita fréttum af láni.

RIA Novosti, fréttastofa ríkissjónvarpsins í Rússlandi, ber til baka fréttir um rússneskt lán til Íslands. Áhugavert.
mbl.is Segir ákvörðun um lán ekki liggja fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefnd?

Hversu gáfulegt er að hefna sín á karlskratta á grafarbakkanum fyrir atburði sem gerðust fyrir meira en sextíu árum? Hversu líklegt er að hann muni aftur fara að myrða nokkur þúsund serba? Nei, ætli það sé ekki nær lagi að ímynda sér að hér sjái serbar sér leik á borði, og benda á að þeir hafi sko líka verið fórnarlömb þjóðernishreinsana. Eins og það komi málinu við.

Og síðast þegar ég vissi var enn talað um Dóná.


mbl.is 94 ára stríðsglæpamaður fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráð um öryggi ríkisins

Á sama tíma og rússagrýlan er dregin upp úr skúffunni fer Björn Bjarnason offari í öryggismálaflandri sínu. Innanríkisráðherra Íslands fer nú þegar fyrir öllum vopnuðum sveitum landsins utan friðargæslunnar, og hyggst því til viðbótar koma á fót eftirlits- og njósnastofnun. Greiningardeild hljómar vissulega ágætlega, en við skulum athuga að „Fréttaþjónusta sambandsins“ í Þýskalandi er ekkert annað en leyniþjónusta. Hún aflar frétta með ýmsum hætti, og það má telja líklegt að íslenska greiningardeildin hafi nú þegar einhverjar leiðir til að afla hráefnis til greiningar, sem fela fleira í sér en að lesa blöðin. Og ennfremur á sama tíma láta áberandi aðilar innan lögreglunnar hafa það eftir sér að miðstýringartilhneiging Ríkislögreglustjóra sé óþægileg – og er sparkað fjórum dögum síðar.

Ég held svei mér þá að Björn Bjarnason ætti að vera farinn að átta sig á því að hann getur ekkert gert án þess að hleypa öllu í háaloft.


mbl.is Drög um öryggis- og greiningarþjónustu kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Alvarleg staða löggæslunnar í landinu“

Slæm staða valdstjórnarinnar er algjörlega sjálfskaparvíti, og þetta ætti að vera öllum ljóst. Það er hinsvegar síður en svo ljóst að þetta sé alvarlegt vandamál fyrir samfélagið, þó að það sé það ljóslega fyrir ríkið. Spurningin er nefnilega þessi: Hvað er lögreglan?

Mottó íslensku lögreglunnar, „með lögum skal land byggja,“ er á margan hátt hreinskilnara en það sem finnst víða erlendis – t.d. í BNA, þar sem mottóið er „to protect and serve“ þrátt fyrir ítrekaða dóma þess efnis að lögreglunni þar beri engin skylda til að vernda fólk. Sérlega upplýsandi er að síðari hluta málsháttarins skuli vera sleppt úr: „en ólögum eyða.“ Þessi síðari hluti er nefnilega ekki síður mikilvægari en hinn fyrri, því að hér er ekki verið að tala um lögleysu heldur vond lög; lög sem gera samfélaginu ógagn. Lög sem hefta tjáningarfrelsi, til dæmis, eru ólög. Lögreglan gerir engan greinarmun á lögum, heldur á að framfylgja þeim öllum.

En hver er raunverulega þörfin á því? Það má heita augljóst að lögreglan er ófær um að tryggja öryggi einstaklinga á svæðum þar sem samfélagsregla hefur brotnað niður. Ótal niðurnídd hverfi í stórborgum BNA eru til marks um það. En á þeim svæðum þar sem samfélagsregla er til staðar er lögreglan ekki nauðsynleg, því þar sér fólk sjálft um að halda henni við. Lögreglan getur því aðeins komið að gagni einhversstaðar þarna á milli, einhversstaðar á meðan samfélagið er að falla í upplausn. Í slíkum tilvikum er hún til staðar til að verja þá sem líkar við ástandið eins og það er frá þeim sem vilja breyta því. Virðing og óvirðing fyrir lögreglunni endurspeglar því að talsverðu leyti það hversu ánægt fólk er með ríkjandi ástand.

Ég er óánægður með það, og því tel ég að erfiðleikar lögreglunnar séu ekki vandamál fyrir samfélagið, sem myndi hagnast á talsverðum breytingum.


mbl.is Jóhann tilkynnti afsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innri átök valdstjórnarinnar.

Helsta tól íslensku valdstjórnarinnar virðist vera í minniháttar upplausn. Síðustu daga hafa fjölmiðlar birt fréttir af ýmsum lögregluþjónum og -stjórum, sem virðast hnakkrífast innbyrðis. Málin virðast öll stafa af einum kjarna: Hér er verið að deila um aukna miðstýringu lögregluliðsins með embætti ríkislögreglustjóra. Auglýsing á embætti lögreglustjóra Suðurnesja getur varla talist annað en refsing fyrir yfirlýsingar núverandi lögreglustjóra, sem lét hafa það eftir sér í fréttum að ríkislögreglustjóri sé að auka miðstýringu lögregluvalds.

Þetta er valdabarátta. Hér eigast við fulltrúar valdstjórnarinnar, sem bítast um það hversu stóra sneið af kökunni hver þeirra fær. Fjárveitingar til lögreglu og Landhelgisgæslunnar eru langt því frá nægilegar fyrir þau verkefni sem þessar stofnanir hafa á hendi. Ólíkt gæslunni getur lögreglan bitist um þá peninga sem til eru. Inn í það blandast átök um það hversu voldug lögreglan á að vera. Almennir borgarar geta lítið annað gert en horft á og velt fyrir sér hver útkoman verður. Á hvern veginn sem þetta fer, má telja víst að styrkur lögreglunnar gagnvart okkur verði meiri. Þegar allt kemur til alls, þá er lögreglan tól ríkisins; ekki þjónar fólksins. Ríkislögreglustjóri virðist gera sér grein fyrir því. Það ættu fleiri að gera.


mbl.is Segir sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Stjórnlausar fréttaskýringar

Höfundur

Herbert Snorrason
Herbert Snorrason
Sagnfræðinemi og stjórnleysingi sem hefur sitthvað að athuga við fréttaflutning samtímans.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband